Algengar spurningar

  • Grænahlíð er sérhæft fjölskyldumiðað geðheilbrigðisúrræði fyrir börn og ungmenni á aldrinum 0 til 25 ára og fjölskyldur þeirra. Í Grænuhlíð starfar þverfaglegt teymi meðferðaraðila sem leitast við að veita fjölskyldum í heild og einstaklingum innan hennar sérhæfða og heildræna meðferð óháð aldri. Lögð er áhersla á áfallamiðaða nálgun og tengslaeflandi meðferð fremur en formlegar greiningar og lyfjagjöf þó slíkt geti verið hluti að stærri meðferðaráætlun.

    Sérstaða Grænuhlíðar er sú að ekki er aðeins litið á barnið/ungmennið sem einstakling, heldur sem hluta af stærri fjölskyldueiningu og þess vegna teljum við mikilvægt að meðferðaraðilar barna og fullorðinna starfi saman undir sama þaki. Við teljum þessa nálgun mikilvæga í þágu farsældar barna og ungmenna.

  • Grænuhlíðarteymið tekur á móti þjónustubeiðnum frá forsjáraðilum og frá fagaðilum sem þekkja til barnsins/ungmennisins eða fjölskyldunnar. Fagaðilar geta verið sjálfstætt starfandi eða opinbert heilbrigðisstarfsfólk, starfsfólk í skólaþjónustu, leikskóla eða skóla, þjónustumiðstöð eða barnavernd svo dæmi séu tekin.

    Hvort sem fjölskyldan sjálf eða fagaðili sækir um fyrir þeirra hönd þarf að skila inn tilheyrandi gögnum svo að þjónustubeiðnin sé tekin gild. Lesa má nánar um það hér.

  • Til þess að sækja um þjónustu hjá Grænuhlíðarteyminu þarf að senda inn útfyllta þjónustubeiðni. Einnig þarf að fylgja með undirritað upplýst samþykkisblað. Samþykkisblaðið þarf að vera undirritað af báðum forsjáraðilum ef þeir fara með sameiginlega forsjá eða af ungmenninu sjálfu ef það er 16 ára eða eldra.

    Senda þarf skjölin í gegnum fyrirtækjahólf Grænuhlíðar fjölskyldumiðstöðvar á Signet Transfer.

    Lesa má nánar um umsóknarferlið hér á heimasíðunni.

  • Til þess að senda þjónustubeiðni eða önnur persónugreinanleg eða viðkvæm gögn til Grænuhlíðar er best að nota Signet Transfer til þess að tryggja öryggi gagnanna. Til þess að opna Signet transfer ýttu hér.

    1. Skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum.

    2. Veldu ,,Senda á fyrirtæki”.

    3. Í ,,Innihald sendingar” veldu þau gögn sem þú vilt senda og skrifaðu nánari lýsingu á gögnunum í skilaboðagluggann ef þörf er á.

    4. í ,,Móttökuhópar” veljið Grænuhlíð fjölskyldumiðstöð sem fyrirtæki og móttaka gagna sem hóp.

    5. Fylltu inn í tölvupóstgluggann.

    6. Veldu ,,Senda”.

    Þegar viðtakandi í Grænuhlíð hefur opnað gagnasendinguna færð þú staðfestingartölvupóst þess efnis frá Signet transfer.

  • Þegar þjónustubeiðni er móttekin má vænta þess að málið verði tekið fyrir á beiðnafundi sem haldnir eru einu sinni í mánuði. Þar er ákveðið hvort:

    1. Bjóða eigi fjölskyldunni í matsviðtal til þess að meta hvort að þjónusta Grænuhlíðar geti nýst þeim, afla frekari upplýsinga, spyrjast fyrir um væntingar og þarfir fjölskyldunnar. Málið er síðan aftur tekið fyrir á fundi til þess að ákveða næstu skref og móta meðferðaráætlun ef við á.

    2. Úthluta eigi málinu til meðferðaraðila út frá þeim upplýsingum sem koma fram á þjónustubeiðninni.

    3. Óska eigi eftir frekari upplýsingum áður en tekin er afstaða til næstu skrefa. Fundað er síðan aftur um málið þegar þær upplýsingar hafa borist.

    4. Vísa eigi málinu frá.

    Þegar ákvörðun liggur fyrir er sent formlegt bréf í gegnum Signet Transfer til þess aðila sem sendi þjónustubeiðnina.

  • Við sem erum í Grænuhlíðarteyminu erum sjálfstætt starfandi og tökum einnig að okkur mál barna og fullorðinna sem eru utan Grænuhlíðarteymisins þ.e. ef ekki er talin þörf á þverfaglegri aðkomu að málinu. Í þeim tilfellum er þá hægt að hafa samband beint við þann meðferðaraðila sem óskað er eftir að komast að hjá í gegnum persónulega netfangið þeirra og athuga stöðuna hjá þeim. Netföngin eru að finna á prófíl hvers og eins hér á heimasíðunni.

    Athugið að Anna María geðlæknir tekur ekki við beiðnum utan teymisins og er því ekki hægt að komast að hjá henni án formlegrar þjónustubeiðnar vegna barns/ungmennis og aðkomu teymisins.

  • Aðkoma þverfaglegs teymis, fremur en eins meðferðaraðila, er talin þörf til dæmis þegar vandi barns eða fjölskyldu er fjölþættur t.d: þegar saga er um flókin áföll eða tengslavanda, djúpstæðan fjölskylduvanda eða ef um er að ræða félagsþjónustumál eða opið barnaverndarmál.

  • Grænahlíð er þverfagleg þjónusta og til þess að opna fyrir aðkomu teymisins í málefnum barns og fjölskyldu þess þarf að berast þjónustubeiðni sem finna má á heimasíðunni okkar. Þegar málinu hefur verið úthlutað innan teymsins þá er því fylgt eftir með samráði á teymisfundum Grænuhlíðar. Það auðveldar samræmingu á þjónustunni fyrir alla fjölskylduna sem oft er sinnt ef fleirum en einum meðferðaraðila.

    Hægt er að hafa beint samband við fagaðila innan Grænuhlíðar í gegnum netfang hvers og eins á heimasíðunni. Þegar fjölskylda eða einstaklingur er í þjónustu hjá einstaka meðferðaraðila sem starfar í Grænuhlíð er ekki fjallað um málið innan teymisins þar sem hver starfsmaður er sjálfstætt starfandi.

  • Sólrún sálfræðingur er á rammasamningi við SÍ og getur tekið á móti tilvísunum frá heimilislæknum vegna þjónustu við bæði börn og fullorðna, þar sem hún er sem stendur á rammasamningi sálfræðinga við sjúkratryggingar. Athugið að Sólrún veitir aðeins fjarmeðferð.

  • Í Grænuhlíð fjölskyldumiðstöð er lögð áhersla á meðferðarinngrip. Í upphafi meðferðar er gert ítarlegt mat á styrkleikum og vanda barns og fjölskyldu. Taugasálfræðilegt mat getur verið hluti af heildrænni uppvinnslu máls og meðferðaráætlun en er ekki gert eitt og sér.

    Athugið að Anna María geðlæknir sinnir eingöngu greiningarmati og lyfjagjöf vegna ADHD hjá börnum og foreldrum sem þegar eru í þjónustu teymisins.

  • þau námskeið sem auglýst eru á heimasíðunni og samfélagsmiðlum okkar eru opin öllum óháð því hvort að þeir séu í meðferð hjá Grænuhlíð. Mörg stéttarfélög taka þátt í kostnaði við þau námskeið sem boðið er upp á.

    Fyrir utan þau námskeið sem eru auglýst bjóðum við einnig upp á sérsniðna fyrirlestra og/eða vinnustofur fyrir hópa og fyrirtæki út frá þeirra sérsviði, áhuga og þörfum. Slíkt hefur nýst t.d. fyrir starfs- og/eða fræðsludaga og til endurmentunnar.

  • Fordæmi eru fyrir því að félagsþjónusta og barnavernd taki þátt í kostnaði við þá meðferð sem veitt er í Grænuhlíð. Fjölskyldum er því bent á að hafa samband við tengiliði í sínu nærumhverfi til að þess að athuga sína stöðu.

    Mörg stéttarfélög bjóða upp á náms-og/eða endurmenntunarstyrk sem hægt er að nýta upp í námskeiðsgjöld. Einnig bjóða sum stéttarfélög upp á heilsustyrk sem má nýta fyrir meðferðarviðtöl.

  • Fyrir almennar fyrirspurnir er best að senda tölvupóst á netfang Grænuhlíðar (mottakan@graenahlid.is) eða ýta á Hafa samband hér á heimasíðunni og fylla inn í skilaboðagluggann.

    Einnig er hægt að hafa samband beint við meðferðaraðilana í gegnum persónulegu netföngin þeirra. Netföng meðferðaraðila er að finna á prófíl síðu hvers og eins hér á heimasíðunni.

  • Grænahlíð veitir ekki bráðaþjónustu. Sé málið brýnt er mikilvægt að því sé sinnt án tafar og hvetjum við fólk til að hafa samband við afgreiðslu Bráðateymis Barna- og unglingageðdeildar sem er opin á milli kl 8-16 virka daga í síma 543-4300, bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins sem er opin allan sólahringinn í síma 543-1000 eða neyðarlínuna 112.

  • Allir sérfræðingar Grænuhlíðar starfa að meðferð á faglegum grunni. Auk þess hafa allir sérfræðingar velferð barna sérstaklega að leiðarljósi í starfi sínu og sinna tilkynningarskyldu sinni samkvæmt barnaverndarlögum sem í gildi eru hverju sinni.

    Samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn eru sérfræðingar Grænuhlíðar bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu í samræmi við 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga og 17. gr. laga nr. 34/2012. Það þýðir að þeir geta ekki veitt öðrum aðila upplýsingar um skjólstæðinga Grænuhlíðar, nema með skriflegu leyfi þínu. Trúnaðar- og þagnarskylda þeirra helst þó þeir láti af störfum. Undantekningar á þessu trúnaðarákvæði eru:

    1. Þegar velferð barns, fatlaðs eða aldraðs einstaklings er í húfi, þá ber heilbrigðisstarfsmanni að tilkynna það til yfirvalda.

    2. Þegar grunur leikur á að skjólstæðingur eða annar aðili sé líklegur til að valda sjálfum sér eða öðrum skaða, þá ber heilbrigðisstarfsmanni að hafa samband við einhvern tengdan viðkomandi, viðeigandi stofnun eða yfirvöld.

    Kvartanir vegna þjónustu heilbrigðisstarfsmanna berast til Landlæknisembættisins. Frekari upplýsingar um ferlið má finna á þessari vefslóð: http://www.landlaeknir.is