Meðferð


Boðið er upp á meðferð fyrir fjölskyldur í heild sinni eða aðila innan hennar eftir því sem við á. Þó barnið/ungmennið sé miðpunktur allrar meðferðar hjá okkur er fjölskyldan og aðrir aðilar sem standa þeim nærri ekki síður mikilvægir í þeirri vinnu sem fer fram. Til þess að ná sem mestum árangri er því ætlast til að umsjónaraðilar barnsins/ungmennisins séu virkir þátttakendur í meðferðinni.

Öll mál sem koma inn á borð Grænuhlíðar eru unnin í teymisvinnu og er fagþekking starfsmanna fjölbreytt og meðferðarúrræðin eftir því. Í upphafi er gert þverfaglegt mat í samræmi við megin vanda barns/ungmennis og/eða fjölskyldu. Í kjölfarið er valin meðferð þar sem sérhæfing meðferðaraðilanna er nýtt til að nálgast vanda hverrar fjölskyldu á sem bestan hátt.


Nánari lýsing á meðferðarúrræðum


  • ACT (acceptance and commitment therapy) er gagnreynt meðferðarform sem flokkast undir þriðju bylgju atferlismeðferðarinnar þar sem fyrsta bylgjan er atferlismeðferðin sjálf, hugræni þátturinn bætist svo við í annarri bylgju með hugrænni atferlismeðferð og það sem einkennir þriðju bylgjuna er svo núvitundarþátturinn.

    Markmið ACT meðferðar er að auka sálfræðilegan sveigjanleika (psychological flexibility) og þar með frelsi til að velja viðbrögð við aðstæðum og áreiti í samræmi við þau gildi sem fólk vill lifa í samræmi við. Mikilvægur hluti meðferðar er því að átta sig á hvað skiptir máli í lífinu og hvernig lítur innihaldsríkt líf út í huga hvers og eins. Síðan að greina þær innri hindranir (svo sem hugsanir og tilfinningar) sem standa í veginum fyrir að viðkomandi sé að lifa slíku lífi. Aðferðum núvitundar og sáttar er svo beitt til að takast á við þessar innri hindranir. Hér er gengið út frá þeirri hugmyndafræði að óhjálplegar hugsanir og erfiðar tilfinningar séu ekki vandinn heldur samband okkar við þessi innri ferli sem hafi of mikið vægi í því hvernig við lifum lífinu.

    Í ACT meðferð er markmiðið ekki að eyða neikvæðum hugsunum, tilfinningum eða upplifunum heldur er lögð áherslu á að sættast við það að erfiðleikar eru óhjákvæmilegur hluti af lífinu. Að auki er unnið að því að bæta líðan einstaklingsins með því að vinna að jákvæðum breytingum sem samræmast lífsgildum hans og markmiðum.

  • EMDR meðferð er tegund sálfræðimeðferðar sem hjálpar einstaklingum að sigrast á áföllum og tilfinningalegri vanlíðan. EMDR meðferð byggir á þeirri hugmynd að áföll geti setið föstu í heila og líkama (taugakerfinu), sem leiðir til áframhaldandi vanlíðunar og neikvæðra skoðana í eigin garð. Í EMDR úrvinnslu leiðbeinir meðferðaraðilinn skjólstæðingnum að rifja upp áfallaminningar en tekur jafnframt þátt í einhvers konar tvíhliða örvun, svo sem augnhreyfingum, banki eða hljóðum.

    Þessi tvíhliða örvun er talin hjálpa heilanum að vinna úr og samþætta áfallaupplýsingarnar, sem leiðir til minnkunar á vanlíðan og neikvæðum viðhorfum.

    Einn af einstökum þáttum EMDR úrvinnslu er að hún getur oft leitt til hraðra og varanlegra breytinga. Að auki hefur EMDR meðferð reynst árangursrík við meðhöndlun margs konar geðheilbrigðisvandamála, þar á meðal áfallastreituröskunar (PTSD), kvíða, þunglyndis og fælni.

  • Íhlutun vettvangsþjónustu er tímabundið inngrip og fer yfirleitt fram inn á heimili skjólstæðinga. Heimilið veitir fólki öryggi og afslappað andrúmsloft sem styður við myndun meðferðarsambands. Þjónustan er ávallt veitt í samvinnu við forráðamenn barns og barnið sjálft. Vellíðan og öryggi forráðamanna er lykilatriðið þegar kemur að því að hjálpa fjölskyldunni.

    Leitast er við að skapa öruggt, hlýlegt og skilningsríkt andrúmsloft þar sem börn og fullorðnir geta sameinast um að finna lausnir. Unnið er saman að því að skapa möguleika fyrir örugg tengsl þar sem börn og fullorðnir finna fyrir stuðningi og aukinni vernd, viðurkenningu og bættri andlegri líðan.

    Veitt er fjölskyldu og tengslamiðuð meðferð með aðferðum eins og Öryggishringnum, almennum stuðningi, ráðgjöf um tengslamiðaðar uppeldisaðferðir, uppsetningu umbunarkerfis, félagsfærnisagna, myndrænu skipulagi, hlutverkaleikjum og listsköpun.

  • Fyrir foreldra barna með geðrænan-, hegðunar-, og/eða tilfinningavanda með áherslu á tengslamyndun og heilaþroska

    Fyrir ungmenni sem glíma við geðrænan-, hegðunar-, og/eða tilfinningavanda með áherslu á tilfinningastjórnun og samskipti

  • Hugræn atferlismeðferð er tegund sálfræðimeðferðar sem miðar að því að draga úr einkennum ýmissa geðrænna kvilla. Nálgunin hefur hefur sýnt góðan árangur við ýmsum sálrænum vanda á borð við þunglyndi, lágu sjálfsmati, ýmsum kvíðaröskunum, fælni, áráttu- og þráhyggju, svefnvanda, fíknivanda og áfallastreitu.

    Í hugrænni atferlismeðferð er leitast við að kortleggja og skilja samspil hugsana, tilfinninga, líkamlegs ástands og hegðunar. Í gegnum hugræna vinnu er leitast við að endurmeta og hafa áhrif á þau óhjálpleg hugsana- og hegðunarmynstur sem viðhalda vandanum.

    HAM felur venjulega í sér nokkur stig. Fyrsta stigið er að bera kennsl á neikvæðar hugsanir og viðhorf og kortleggja í hverju vandinn felst. Síðan mun meðferðaraðilinn hjálpa skjólstæðingi að bera kennsl á kerfisbundnar hugsanaskekkjur, svo sem allt eða ekkert hugsun eða alhæfingar, og kenna leiðir til að setja hugsanir í nýtt samhengi með fleiri sjónarmið í huga og leiða þannig til raunsærra mats á málefninu.

    Annað stigið er að þróa hjálpleg bjargráð og hegðun til að brjóta upp vítahringi sem viðhalda vanda. Það getur verið breytilegt hvað það er sem þarf að gera, t.d. gætu sumir þurft að virkja sig og koma á skipulagi daglegs lífs á meðan aðrir gætu þurft að draga úr forðun frá kvíðavekjandi aðstæðum, svo eitthvað sé nefnt. Í gegnum ferlið hjá öllum er það samt sameiginlegt að mikil áhersla er á heimavinnu, hvort sem hún er skrifleg eða í framkvæmt tilrauna með breytta hugsun eða hegðun. Árangur meðferðar fer mikið eftir því hve virkur skjólstæðingur getu verið sjálfur í þessu á milli meðferðartímanna.

    Lokastig HAM er að viðhalda árangri og koma í veg fyrir bakslag. Meðferðaraðilinn mun vinna með skjólstæðingnum að því að þróa áætlun um bakslagsvarnir.

    Fyrir börn er HAM oft aðlagað til að vera meira aldurssamsvarandi, þar sem meðferðaraðilinn notar leik og skapandi nálgun til að virkja barnið. Meðferðaraðilinn getur einnig unnið náið með fjölskyldu barnsins til að tryggja að aðferðunum, sem kenndar eru í meðferðinni, sé hægt að fylgja eftir heima.

  • Um er að ræða meðferðarnálgun sem á ensku kallast „body psychotherapy“ eða „somatic psychotherapy“ og er sálræn meðferð þar sem líkamstjáning, líkamleg skynjun og upplifun er tekin með. Skoðað er hvernig reynsla og upplýsingar sitja í líkamanum, m.a. í taugakerfinu, ekki síður en í huganum. Segja má að horft sé á líkamann sem kort af innra sálarlífi einstaklings. Dyr sem hægt er að opna mjúklega þannig að líkamsminningar og ómeðvituð kjarnaviðhorf komist upp á yfirborðið. Vanamynstur og strúktúr líkamans, t.d. líkamleg tjáning og hvernig við berum okkur líkamlega, verða öflugar vísbendingar sem opna fyrir leiðir til að vekja upp ómeðvitað djúpt efni (core material).

    Oft teljum við okkur vita eitthvað en það getur verið mjög takmarkað ef við höfum eingöngu hugræna tengingu við það. Þegar við í alvöru tengjumst inn á við, stöldrum við og hlustum á allt kerfið, þ.e. líkama og það sem við skynjum innra með okkur, þá getum við fengið aðgang að upplýsingum sem liggja miklu dýpra og gefa nýjan skilning og innsýn.

    Það sem hefur vakið sérstaka athygli á líkamsmiðaðri sálrænni meðferð eru rannsóknir undanfarna áratugi á áhrifum áfalla og erfiðrar reynslu á manneskjuna. Áföll og erfið reynsla hefur mikil áhrif og situr í líkamanum, meðal annars í taugakerfinu. Því er mjög mikilvægt að vinna heildrænt, huga að ástandi taugakerfis og taka líkamann með þegar unnið er úr áföllum.

    Til er margar nálganir í líkamsmiðaðri sálrænni meðferð. Í Grænuhlíð er meðferðin byggð á djúpsálarfræði (psychodynamic psychotherapy), tengslakenningum, núvitund, nútíma-taugavísindum og áfallafræði.

  • Náttúrumeðferð fer fram utandyra, oft í nærumhverfi höfuðborgarsvæðis eða í ósnortri náttúru. Í stuttu máli sagt er meðferðarrýmið flutt úr viðtalsherbergi út í náttúruna eða náttúran færð inn og getur farið fram bæði í einstaklings eða hópmeðferð.

    Í náttúrumeðferð fær einstaklingurinn tækifæri til að spyrja spurninga við því sem leytað er svara við með því að skoða sjálfan sig í gegnum samtalsmeðferð og verkefni í náttúrunni. Lagt er upp með að skapa öruggar aðstæður til að leyfa sér að upplifa og prófa sig áfram með breyttar venjur í hugsun og hegðun. Þar fær einstaklingurinn rými til að finna sínar leiðir til að takast á við hindranir og líðan sem getur leitt til aukins þroska og elft heilsu.

    Náttúrumeðferð getur nýst vel sem leið til að skoða lífssögu, lífsmynstur og hegðun, mismunandi hlutverk, hindranir og tengsl við sjálfan sig og aðra í öruggu rými í náttúrunni. Nálgunin hefur verið notuð um allan heim með góðum árangri en markmið meðferðar er að nota náttúrulegt umhverfi til að styðja einstaklinga til að takast á við heilsubrest, efla tengsl við sjálfan sig og aðra og að efla geðheilsu sína í gegnum verkefni sem reyna á tilfinningalega, vitsmunalega, félagslega og líkamlega þætti.

    Náttúrumeðferð er í grunnin byggð á hugmyndafræði reynslunáms þar sem einstaklingar prófa sig áfram með reynslu, vana, viðbrögð og hegðun í öruggum aðstæðum. Meðferðaraðilar Grænuhlíðar sem veita náttúrumeðferð leggja auk þess áherslu á áfalla- og tengslamiðaðri nálgun, kenningar um skynúrvinnslu- Sensory Integration, Polyvagal kenningu um taugakerfið, líkamsmiðaðra nálgana, hreyfingarfræði og módelum um myndlíkingar.

    Í meðferðartímum eru áhrif náttúrumeðferðar á andlega og líkamlega heilsu skoðað og upplifanir og verkefni yfirfærð í daglegt líf. Markmiðið er að styðja við þýðingarfulla reynslu og skapa rými til að efla andlega og líkamlega heilsu sem stuðlar að bættri líðan og aukinni þátttöku í samfélaginu.

    Hver einstaklings meðferðartími er 90 mín sem fer fram í kjölfar forviðtals á stofu. Í hóp, para- eða fjölskyldumeðferð er gert ráð fyrir hálfum eða heilum degi en oft fer hópmeðferð fram yfir nokkurra vikna tímabil.

  • Safe and Sound Protocol (SSP) er gagnreynd meðferð sem byggir á hátt í fjögurra áratuga rannsóknum á samspili milli ósjálfráða taugakerfisins og félags- og tilfinningalegra ferla (social-emotional processes).

    SSP meðferðin felur í sér að hlusta á tónlist sem hefur verið sérstaklega meðhöndluð til að endurstilla ósjálfráða taugakerfið. Með því að þjálfa heyrn kerfisbundið eins og gert er með SSP verður til ný grunnstaða (base position) í taugakerfinu sem eflir öryggis tilfinningu einstaklingsins og hæfni hans til að vera í samskiptum.

    Ef einstaklingur upplifir öryggi og er í betra jafnvægi er auðveldara að takast á við óþægileg mál og nálgast tilfinningar sem áður hefur þurft að forðast. Þetta er sérstaklega hjálplegt fyrir einstaklinga í áfallameðferð. Því getur verið ákjósanlegt að fara í gegnum SSP meðferð samhliða eða í byrjun t.d. áfallameðferðar og meðferðar við annars konar vanda, þar sem SSP styður við aðra meðferð og getur aukið árangur.

    Eftir meðferðina eiga einstaklingar betra með að einbeita sér í verkefnum daglegs lífs og upplifa rólegra innra ástand, bæði lífeðlisfræðilega og tilfinningalega. Rannsóknir benda til að færni eins og athygli, tilfinningastjórn og félagsleg samskipti eflist.

    SSP hefur reynst gagnleg einstaklingum með áfallasögu, kvíða, streitutengdan vanda, skynúrvinnsluvanda, s.s. aukna hljóðnæmni og fleira. Meðferðin hentar bæði fyrir börn og fullorðna.

  • Compassion-focused therapy (CFT) er gagnreynd meðferðaraðferð sem getur gagnast öllum en þó sérstaklega fólk sem glímir við skömm, sjálfsgagnrýni og neikvætt sjálfstal/ dómhörku. Með því að auka samkennd og tilfinningastjórn, getur CFT hjálpað okkur að lifa meira fullnægjandi og innihaldsríkara lífi.

    CFT vinnur út frá því að heilinn okkar hafi þróast til að forgangsraða öryggi, geðtengslum og félagslegum tengslum. Hins vegar, þegar fólk lendir í erfiðleikum, getur það fest sig í vítahring neikvæðs sjálfstals, sjálfsgagnrýni og lágs sjálfsmats sem skerðir getu þess til að tengjast öðrum og upplifa jákvæðar tilfinningar. Þetta getur leitt til einangrunar, skammar og vanmáttar sem erfitt getur verið að yfirstíga á eigin spýtur.

    CFT hefur það að marki að hjálpa fólki að takast á við þessar áskoranir með því að þjálfa upp færni og notkun bjargráða til að þróa samkenndarfullt viðhorf gagnvart sjálfum sér og öðrum. Þetta felur í sér þjálfun í tilfinningastjórn, í því að bera kennsl á og ögra neikvæðu sjálfstali og rækta jákvætt andlegt ástand eins og þakklæti og góðvild.

    Ein af megin hugmyndum CFT er skilgreiningin á þremur kerfum tilfinningastjórnunar: Í fyrsta lagi ógnarkerfinu, í öðru lagi drifkerfinu og svo í þriðja lagi í sefkerfinu. Ógnarkerfið ber ábyrgð á að greina og bregðast við hættu og tengist tilfinningum eins og ótta, kvíða og reiði. Drifkerfið sér um að leita uppi umbun/verðlaun (og því stundum kallað verðlaunakerfið) og tengist tilfinningum eins og spennu og metnaði. Sefkerfið hefur það hlutverk að róa okkur niður og efla tilfinningar um öryggi, ánægju og tilfinningalega tengingu.

    CFT hjálpar fólki að koma á betra jafnvægi á milli þessara kerfa og auka virkni sefkerfisins. Markmiðið með því er að hjálpa fólki að upplifa meiri öryggistilfinningu og tilfinningatengsl, sem vinna gegn skömm og lágu sjálfsmati.

    CFT leggur einnig áherslu á mikilvægi núvitundar, sem felur í sér að veita reynslu líðandi stundar athygli á fordómalausan hátt. Með því að þróa færni okkar í núvitund aukum við getu okkar til að greina hugsanir okkar og tilfinningar og verðum betur í stakk búin til að takast á við þær á samkenndarfullan máta (frekar en að dæma þær).

  • Skynjöfnunarmeðferð byggir á hugmyndafræði Jean Ayres um Samspil skynsviða eða Sensory Integration sem miðar að því að auka skynáreiti á ákveðnum skynsviðum til að skapa aukið jafnvægi í miðtaugakerfinu. Einnig byggir meðferðin á Polyvagal kenningu Stephen Porges þar sem áhersla er lögð á að auka skilning á mismunandi viðbrögðum miðtaugakerfis við streitu. Með auknu jafnvægi í miðtaugakerfi upplifum við minni kvíða, betri einbeiting og áreitisþol eykst sem getur haft áhrif á færni í daglegu lífi.

    Áður en skynjöfnunar meðferð hefst er mikilvægt að kortleggja skynsviðin út frá Skynúrvinnslumati- Sensory Profile- SP2. Kortlagning skynkerfa getur verið áhrifarík leið til að koma auga á hvar tækifæri liggja til að skapa aukið jafnvægi í líðan og draga úr streituvaldandi þáttum. Með líkamsmiðuðum æfingum, aðlögun iðju og umhverfis er hægt að hafa áhrif á úrvinnslu skynáreita sem fer fram í miðtaugakerfinu. Kortlagning skynkerfa og skynjöfnunarmeðferð getur þannig aukið skilning og þekkingu á því hvernig og af hverju við bregðumst við skynáreitum á mismunandi hátt sem oft getur komið fram í óæskilegri hegðun eða frumstæðum viðbrögðum heilans við of mikilli streitu sem eru ekki eins samfélagslega viðurkennd og gengur og gerist.

    Skynjöfnunarmeðferð hefur reynst gagnleg fyrir einstaklinga sem eru með skynúrvinnsluvanda tengdum einkennum ADHD-einhverfurófs, með áfallasögu, kvíða og fl. Meðferðin hentar jafnt fyrir börn og fullorðna og getur verið hjálpleg til að auka þekkingu og skilning á mismunandi viðbrögðum foreldris og barns við áreitum í daglegu lífi.

  • Fjölskyldumeðferð og listmeðferð fela í sér fjöldann allan af áhugaverðum hliðstæðum. Báðar starfsgreinar urðu til í gegnum vinnu ástríðufullra og einbeittra fagaðila sem samtímis hófu að kanna óþekkt svið. Sameining fjölskyldumeðferðar og listmeðferðar veitir meðferðaraðilanum afar gagnlegar leiðir í sinni meðferðarvinnu og gefur rými til að einstaklingsmiða meðferðina. Hver og einn fær að láni helstu kenningar um fjölskyldumeðferð sem grunn til að fela enn frekar í sér listræna tjáningu við að bera kennsl á og skilja gangverk og samskiptamynstur innan fjölskyldunnar.

    Einnig má nefna kosti eins og sjónræna vandamálalausn og virka þátttöku í meðferð.

    Fjölskyldulistmeðferð gefur hverjum fjölskyldumeðlim tækifæri til að taka þátt með því að nota sitt eigið tákn til að lýsa upplifun eða tilfinningu tengdri fjölskyldunni.

    Fjölskyldulistmeðferð veitir jöfn tækifæri fyrir hvern meðlim/kynslóð fjölskyldunnar til að tjá tilfinningar sínar og getur einnig verið áhrifaríkur valkostur fyrir ung börn sem geta ekki tjáð tilfinningar sínar á nákvæman hátt. Að auki getur listin þjónað sem eðlileg nálgun til að hefja samræður um fjölskyldumál og hlutverk. Sem dæmi gætu meðferðaraðilar stofnað til umræðu einfaldlega með því að biðja þátttakendur að mála saman og sjá þannig tengsl og samskipti sem birtast í samvinnunni á blaðinu.

  • Fjölskyldumeðferð er meðferðarnálgun þar sem velferð fjölskyldunnar er höfð að leiðarljósi og tekið er mið af áhrifamætti fjölskylduheildarinnar. Þessi skilgreining byggist á hugmyndinni um fjölskyldu sem kerfi og að breyting á hjá einum einstakling hefur áhrif á aðra í fjölskyldunni. Fjölskyldumeðferð er gagnreynt meðferðarúrræði (Evidence-based practice) þar sem m.a. er tekist á við líkamleg og andleg veikindi, áföll af ýmsum toga, sorgarferli, barnauppeldi, samskipti, ágreining af ýmsu tagi og breytt fjölskyldumynstur í kjölfar skilnaðar.

    Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð vísar til fjölskyldumeðferðar þar sem tengslafræðin (e. Attachment theory) er höfð að leiðarljósi ásamt kenningum um þroska barna (e. Child development theory), sem og rannsóknum í taugavísindum á áföllum og heilaþroska barna. Tengslamiðuð fjölskyldumeðferð miðar að því að styrka geðtengsl barna og auka innsýn umönnunaraðila í tilfinningalíf þeirra sem og öryggis- og nándarþörf. Meðferðin gagnast einkum fjölskyldum sem hafa tekist á við áföll, tengslarof, langvarandi streitu eða þar sem barn eða foreldri hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu.

  • Öryggishringurinn (Circle of Security) byggir á tengslakenningu John Bowlby og á margra ára rannsóknum um það hvernig megi styrkja og styðja við örugga tengslamyndun barna og foreldra/forráðamanna.

    Efni Öryggishringsins er kynnt í átta köflum þar sem hverjum kafla fylgir myndband og upplýsingablöð sem útskýra þau hugtök sem unnið er með á auðskiljanlegan máta. Innihald myndbandana er notað til að skapa umræður og eru foreldrar hvattir til þess að endurspegla og ræða efnið út frá sinni reynslu.